Alexander Petersson gat ekki spilað með Füchse Berlin þegar liðið vann öruggan sigur á Wetzlar, 28-19, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í gær.
„Við ákváðum að taka hann ekki með þar sem hann er enn að drepast í bakinu," sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin, við Fréttablaðið.
„Það gæti verið að hann þurfi einhverja daga eða vikur í hvíld en það er ekki að sjá á myndum að meiðslin séu alvarleg," bætti hann við. Dagur óttast ekki fyrir hönd íslenska landsliðsins að Alexander missi af HM sem fer fram í Svíþjóð í næsta mánuði.
„Það er enn langt í mótið og við erum að vonast til þess að hann geti spilað með okkur á þriðjudaginn. Við þurfum að sjá til hvernig hann verður á æfingu á morgun [í dag]."