Innlent

Tilboð í Búðarhálsvirkjun opnuð í næstu viku

Landsvirkjun hyggst standa við þá áætlun að opna tilboð í smíði Búðarhálsvirkjunar í næstu viku, þrátt fyrir að óvissa ríki um fjármögnun. Enn hefur ekki tekist að koma neinum nýjum stórframkvæmdum í gang í landinu eftir efnahagshrunið.

Með stöðugleikasáttmálunum, sem undirritaður var fyrir fjórtán mánuðum, hétu stjórnvöld því að blása lífi í efnahagslífið með því að stuðla að stórframkvæmdum eins og Búðarhálsvirkjun, álveri í Helguvík, gagnaveri, samgöngumiðstöð og tvöföldun Suðurlandsvegar. Mun hægar hefur gengið að koma þessum verkefnum af stað, en áformað var. Landsvirkjun bauð þó út smíði Búðarhálsvirkjunar í vor og er gert ráð fyrir að tilboðin verði opnuð næstkomandi fimmtudag.

Viðskiptablaðið greindi frá því í vikunni að Fjárfestingarbanki Evrópu hefði í síðasta mánuði lokað á lán til framkvæmda við Búðarháls þar sem Icesave-deilan væri óleyst. Talsmaður Landsvirkjunar, Ragna Sara Jónsdóttir, hefur þó sagt að láninu hafi aðeins verið frestað.

Hún segir þessa óvissu um fjármögnun ekki koma í veg fyrir að tilboðin í Búðarháls verði opnuð á tilsettum tíma í næstu viku. Landsvirkjun hafi síðan átta vikur til að fara yfir tilboðin og því næst fylgi viðræður við lægstbjóðanda. Hún segir Landsvirkjun vonast til að á meðan takist að tryggja fjármögnun og heldur enn í vonina um að framkvæmdir hefjist við Búðarháls í vetrarbyrjun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×