Golf

Birgir Leifur í fimmta sæti eftir tvo hringi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson.

Birgir Leifur Hafþórsson hefur byrjað mjög vel á Condado Open-mótinu sem er liður í spænsku Hi5-mótaröðinni. Birgir Leifur er í fimmta sæti eftir tvo daga en hann hefur spilað fyrstu 36 holurnar á þremur höggum undir pari.

Birgir Leifur lék fyrsta hringinn á pari og var þá í áttunda sæti. Hann lék hinsvegar á þremur höggum undir pari í dag og hækkaði sig upp í 5. sætið.

Birgir Leifur fékk fimm fugla í dag, lék ellefu holur á pari og fékk tvo skolla.

Birgir Leifur er þremur höggum á eftir Skotanum Elliot Saltman sem er í forustu en Birgir er einn af þremur kylfingum sem hafa leikið fyrstu tvo hringina á þremur höggum undir pari.

Arnar Snær Hákonarson og Þórður Rafn Gissurarson tóku einnig þátt í mótinu og komst Arnar Snær í gegnum niðurskurðinn.

Arnar bætti sig frá því á fyrsta degi og lék á 73 höggum í dag (77 í gær) eða einu höggi yfir pari. Hann er á sex höggum yfir pari en niðurskurðurinn var miðaður við þá sem léku fyrstu 36 holurnar á sjö höggum yfir pari eða betur.

Þórður lék fyrstu tvo hringina á 15 höggum yfir pari og var nokkuð frá því að ná niðurskurðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×