Claudio Ranieri, þjálfari Roma, er enn eina ferðina við það að vera rekinn úr starfi. Það aðeins nokkrum mánuðum eftir að hafa verið algjör hetja í herbúðum liðsins.
Það er allt farið í háaloft hjá félaginu í kjölfar lélegs gengis í upphafi tímabils. Það er þegar farið að orða Marcello Lippi, fyrrum þjálfara ítalska landsliðsins, við starfið. Ranieri gerir sér grein fyrir sinni stöðu.
"Það er einhver að fela sig í skugganum. Lippi? Nöfnin virðast vera í blöðunum. Eitthvað hljóta blöðin að vita. Ég vissi að Lippi vildi fá starfið mitt þegar ég var hjá Juventus," sagði Ranieri.
Framkvæmdastjóri Roma segir starf Ranieri ekki vera í hættu en fáir trúa því. Roma á leik gegn Inter á laugardag og tapist sá leikur er hermt að Ranieri verði rekinn.