The Hangover 2 fer í tökur seinna í þessum mánuði. Þetta kemur fram í viðtali Empire við leikstjórann Todd Phillips. Phillips er reyndar mjög upptekinn maður ef marka má Empire því hann mun á næstunni frumsýna vegagamanmyndina Due Date með Robert Downey Jr. í aðalhlutverkinu.
En aftur að framhaldinu af The Hangover, sem varð óvænt einhver vinsælasta mynd ársins 2009. Samkvæmt Phillips er ráðgert að myndin gerist í Bangkok og Los Angeles og leikstjórinn lofar mjög óvæntum uppákomum.
Hann staðfestir jafnframt að þeir Zach Galifianakis, Bradley Cooper og Ed Helms snúi aftur í hlutverk hinnar heilögu þrenningar sem lenti í hinum ótrúlegustu hremmingum. Þá mun herra Chow í meðförum Ken Jeong einnig mæta á svæðið á nýjan leik. Phillips virðist hafa einstakt lag á að þefa uppi gott grín því hann leikstýrði einnig Old School, einni fyndnustu mynd Frat Pack gengisins ógurlega með Vince Vaughn, Will Ferrell og Wilson-bræðurna í broddi fylkingar og hefur nú uppgötvað heila kynslóð af fyndnum mönnum á borð við Galifianakis.
Phillips var hins vegar spurður að því hjá blaðamanni Empire hvort hann hræðist ekki framhaldsmyndina: „Ég sá Meet the Fockers, ég veit alveg hvað við erum að fara út í en við setjum markið hátt.“
- fgg