Theo Walcott, leikmaður Arsenal, var ekki að fara á taugum þó svo liðið hafi tapað fyrir Shaktar Donetsk í Meistaradeildinni í kvöld. Þetta var fyrsta tap Arsenal í keppninni í ár en liðið er enn á toppi síns riðils.
Walcott skoraði glæsilegt mark í kvöld er hann stakk alla vörn Shaktar af og lagði boltann smekklega í markið.
"Það er erfitt að koma hingað og árangur Shaktar á heimavelli er góður. Það gekk hjá okkur að skora snemma og þagga niður í áhorfendum. Það skilaði samt ekki sigri og svona er fótboltinn," sagði Walcott.
"Markið mitt skiptir engu máli því við náðum ekki að vinna. Við erum samt enn á toppnum og ég hef því engar áhyggjur."