Hollendingurinn Arjen Robben skoraði eina mark leiksins í framlengingu þegar Bayern Munchen tryggði sér sæti í bikarúrslitaleiknum í Þýskalandi með 1-0 sigri á Schalke í kvöld. Bayern komst þar með í bikarúrslitaleikinn í sautjánda sinn.
„Ég tel að við höfum verið betra liðið í kvöld og við vorum ferskari í framlengingunni," sagði Arjen Robben sem skoraði markið sitt á 112. mínútu eftir að hafa sloppið í gegn á hægri vængnum.
Bayern Munchen mætir Werder Bremen í úrslitaleiknum sem fer fram 15. maí í Berlín og enn möguleika á því að vinna þrennuna á þessu tímabili.

