Fyrsta uppfærslan af Orð skulu standa fer á fjalir Borgarleikhússins á þriðjudaginn. Karl Th. Birgisson segir engar æfingar hafa átt sér stað enda sé það ómögulegt; þetta verði spuni frá fyrsta orði.
„Við erum búin að fá fólk í fyrstu fjóra þættina og þetta eru allt stórkanónur,“ segir Karl en þeir sem koma fram í fyrsta þættinum eru stórleikarinn og -söngvarinn Egill Ólafsson og ein vinsælasta leikkona landsins, Ilmur Kristjánsdóttir.
Karl Th. segir mikla spennu í mannskapnum enda hafi svona yfirfærsla ekki verið gerð áður hér á Íslandi. Eins í útvarpsþáttunum sálugu eru þau Davíð Þór Jónsson og Hlín Agnarsdóttir gestum þáttarins til halds og trausts en Pálmi Sigurhjartarson mun sitja við flygilinn og töfra fram ljúfa undirtóna.
Í öðrum þættinum verða ekki síðri kanónur þegar Kristján Kristjánsson, KK, og Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, leiða saman hesta sína og í þeim þriðja stíga þau Guðrún Ásmundsdóttir og Karl Sigurðsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, á svið. Fjórði dúettinn sem hefur verið gengið frá er síðan Brynhildur Guðjónsdóttir og Gunnar Eyjólfsson. - fgg
