Ellefu leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þar sem hæst bar stórleikur LeBron James í 113-106 sigri Cleveland Cavaliers gegn New Yok Knicks en Cleveland hefur nú unnið ellefu leiki í röð.
James gerði sér lítið fyrir og skoraði 47 stig, tók 8 fráköst og átti 8 stoðsendingar en hinn ótrúlegi James skoraði 35 stig í fyrri hálfleik og þar af 23 stig í fyrsta leikhlutanum.
James var allt í öllu hjá Cleveland og skorað meðal annars 24 stig í röð fyrir liðið í fyrri hálfleiknum. James kórónaði svo frábæran leik sinn með því að gera endanlega út um leikinn á lokamínútunni þegar New York var byrjað að saxa á forskot heimamanna.
Shaquille O'Neal átti einnig fínan leik fyrir Cleveland og skoraði 19 stig en Nate Robinson var stigahæstur hjá gestunum með 26 stig.
Úrslitin í nótt:
Cleveland-New York 113-106
Charlotte-New Orleans 99-104
Detroit-New Jersey 99-92
Chicago-Miami 95-91
Minnesota-Memphis 109-102
Houston-Philadelphia 95-102
Milwaukee-Indiana 93-81
Utah-Denver 116-106
Portland-LA Lakers 82-99
Golden State-Oklahoma City 95-104
LA Clippers-San Antonio 81-98