Sjö leikmenn þýska liðsins Schalke eiga á hættu að vera sektaðir eftir að upp komst um partístand leikmanna liðsins um helgina aðeins tveimur dögum fyrir bikarleik á móti b-deildarliði FSV Frankfurt sem fram fer í kvöld.
Felix Magath, þjálfari Schalke var allt annað en sáttur þegar fréttist af næturbrölti leikmannanna en einhverjum þykir örugglega ekki mikil ástæða fyrir gleðskap hjá Schalke-mönnum sem eru aðeins í 16. sæti deildarinnar eftir markalaust jafntefli á móti Eintracht Frankfurt á laugardaginn.
Stór hluti leikmanna Schalke hélt liðspartí á laugardagskvöldið og þar á meðal voru fyrirliðinn Manuel Neuer, hollenski framherjinn Klaas-Jan Huntelaar og Bandaríkjamaðurinn Jermaine Jones.
„Ég krefst þess að fá skýringar á þessu framferði leikmanna okkar. Það verður ekki bara nóg að komast áfram í næstu umferð því þeir þurfa að vinna sannfærandi sigur. Ég mun ekki hlusta á afsaknir um að menn séu þreyttir," sagði Felix Magath, þjálfari Schalke.
Partístand hjá Schalke: Þjálfarinn heimtar sannfærandi sigur í kvöld
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir

Þeir bestu (50.-41. sæti): Skagamiðverðir, markahrókar úr Eyjum og Laugardalnum og öldungurinn aftast
