Ítalíumeistarar Inter unnu í kvöld mikilvægan 1-0 sigur á Cagliari í ítölsku úrvalsdeildinni.
Með sigrinum komst liðið upp í annað sæti deildarinnar og er nú tveimur stigum á eftir toppliði AC Milan.
AC Milan á þó leik til góða en liðið mætir Chievo á útivelli á morgun.
Þá getur Napoli endurheimt annað sæti deildarinnar annað kvöld með sigri á Catania á heimavelli.
Marokkóinn Houssine Kharja skoraði eina mark Inter í leiknum strax á sjöundu mínútu. Hann er 28 ára gamall miðvallarleikmaður sem er samningsbundinn Genoa en var lánaður til Inter í síðasta mánuði. Hann hefur skorað tvö mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum með félaginu.
