Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu hefur sennilega sent danska IC4 járnbrautarlest sem gjöf til Gaddafi leiðtoga Líbýu. Það er ítalska félagið Ansaldobreda sem sérsmíðar þessar lestar fyrir danska lestarfélagið DSB.
Í umfjöllun Jyllands Posten um málið segir að í þessari viku hafa alveg óvænt birst mynd í þekktu alþjóðlegu tímariti um járnbrautir af IC4 lest á járnbrautarteinum í Líbýu. Í fyrstu var talið að Ansaldobreda hefði sent lestina þangað til prufukeyrslu.
DSB hefur tjáð sig um málið en þar á bæ segja menn að þessar lestir séu í eigu Ansaldobreda þar til þær yfirgefi Ítalíu. Að öðru leyti vill stjórn DSB ekki tjá sig um málið.
IC4 lestin í Líbýu er mjög frábrugðin þeim sem Danir fá hvað innréttinguna varðar. Þar er að finna stóra hvíta leðursófa, gólfteppi, gardínur og standlampa. Utan á lestinni er áritun á arabísku sem skilja má sem hyllingu til Gaddafi. Og í ljós er komið að lestin sást fyrst í landinu eftir opinbera heimsókn Berlusconi til Gaddafi nýlega.
Dularfull DSB lest var gjöf til Gaddafi
