Bandaríska skíðakonan Lindsey Vonn sýndi í gær að hún er aftur komin í sitt besta form er hún vann öruggan sigur í bruni í heimsbikarnum.
Þetta var fertugasti sigur Vonn í Heimsbikarnum en hún hefur fyrir löngu síðan slegið öll amerísk met í þessum efnum.
"Það er ótrúlegt að ég hafi unnið 40 mót í heimsbikarnum. Það er há tala og ég er því eðlilega afar ánægð. Mér finnst ég njóta forréttinda að gera það sem ég elska á hverjum degi," sagði hinn 26 ára gamla Vonn.
Hún fékk heilahristing fyrir þrem vikum síðan og óttuðust margir að sú aðvörun myndi trufla hana en svo var ekki að sjá í gær.
