Kristrún Sigurjónsdóttir og Slavica Dimovska áttu stórleik á móti sínum gömlu félögum í Haukum þegar Hamarskonur unnu 31 stigs sigur, 90-59, á Ásvöllum í A-deild Iceland Express deildar kvenna í kvöld. Hamar er með þessum sigri nánast búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.
Kristrún skoraði 35 stig og hitti úr 7 af 9 þriggja stiga skotum sínum en Slavica var með 17 stig og 12 stoðsendingar auk þess að stela 6 boltum og hitta úr 5 af 10 þriggja stiga skotum sínum. Hamarsliðið setti samtals niður 15 þriggja stiga skot í leiknum þar af skoruðu þær stöllur tólf af þeim.
Hamar var með mikla yfirburði á móti Haukum í kvöld. Liðið var komið í 26-16 eftir fyrsta leikhlutann, var með 50-39 forystu í hálfleik og var komið 23 stigum yfir, 71-58, fyrir lokaleikhlutann.
Með sigrinum er Hamarsliðið nánast búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins þótt að Keflavík eigi enn tölfræðilega möguleika á því að ná efsta sætinu.
Hamar verður þá að tapa tveimur síðustu leikjum sínum og þar af með að minnsta kosti 28 stigum á móti Keflavík. Keflavík þarf jafnframt að vinna báða sína leiki en þær yrðu þá ofar á betri árangri í innbyrðisleikjum.

