Körfubolti

Kom á ó­vart að Hilmar væri á lausu: „Settum upp liðið í kringum hann“

Aron Guðmundsson skrifar
Hilmar Smári Henningsson er orðinn leikmaður Stjörnunnar á nýjan leik
Hilmar Smári Henningsson er orðinn leikmaður Stjörnunnar á nýjan leik Vísir/Hulda Margrét

Það kom Baldri Þór Ragnars­syni, þjálfara Stjörnunnar í körfu­bolta á óvart að lands­liðs­maðurinn Hilmar Smári Hennings­son, væri á lausu og stæði liðinu til boða. Hilmar, sem lék lykil­hlut­verk í Ís­lands­meistara­liði Stjörnunnar á síðasta tíma­bili í Bónus deildinni, er mættur aftur í Garða­bæinn eftir stutt stopp í Litáen.

„Það er bara frábært að endur­heimta þennan góða dreng, sem er gaman að vinna með, fyrir alla sem koma að starfinu,“ segir Baldur í sam­tali við Vísi um endur­komu Hilmars Smára en í gær var greint frá því að hann hefði yfir­gefið lið Jovana í Litáen sem hann hafði gengi til liðs við í septem­ber á síðasta ári.

Að­dragandinn að félags­skiptunum var ekki langur að sögn Baldurs en sjálfur var hann ekki í hringiðu félagsskiptanna. 

„Mennirnir á bak við tjöldin voru eitt­hvað í þessu í vikunni sem þetta kemur upp. Þetta gerist held ég bara mjög hratt, þeir eru bara í þessu og við erum í leikjaprógrami og svolítið utan við þetta í þetta skipti.“

Hvenær færð þú að frétta af þessu?

„Það er bara snemma í gær,“ segir Baldur sem var skiljan­lega glaður þegar að hann fékk þessar fréttir. 

„Við náttúru­lega settum upp þetta lið í kringum hann í byrjun móts. Menn eru fengnir til liðs við okkur og Hilmar Smári er í þessu liði alveg fram í septem­ber. Það er pláss fyrir hann í þessu liði og þetta er svona eins og upp­haf­lega plan okkar með þetta lið átti að vera. Auðvitað er maður náttúru­lega bara mjög ánægður með að fá hann inn, bara eins og allir væru í þessari stöðu. Hann þekkir okkar menningu, klefa, veit hvernig við viljum spila bæði í sókn og vörn. Kemur bara með gæði að borðinu í þessu sem og reynslu.“

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, er ánægður með að vera búinn að endurheimta einn af lykilmönnum Íslandsmeistaraliðs Stjörnunnar frá því á síðasta tímabili.Vísir/Hulda Margrét

Hilmar Smári var stór hluti af Ís­lands­meistara­liði Stjörnunnar á síðasta tíma­bili þar sem hann var með 21,6 stig, 4,1 frákast og 3,8 stoð­sendingar að meðaltali í leik í deildar­keppni Bónus deildarinnar. Í úr­slita­keppninni var hann með 19,8 stig, 4,1 frákast og 3,4 stoð­sendingar.

Eftir Evrópumótið með ís­lenska lands­liðinu vitjaði Hilmar nýrra ævintýra og samdi við Jovana en vera hans í Litáen var ekki löng.

Kom það þér á óvart að Hilmar Smári væri á lausu?

„Já í sjálfu sér kom það mér á óvart. En þessi at­vinnu­mennska er harður heimur, þú þarft að hitta á rétta um­hverfið og þá getur þetta gengið rosa­lega vel og rifið mann upp í hæstu hæðir en svo er líka hægt að lenda í skrítnum aðstæðum. Hilmar Smári er klár­lega með hæfi­leikana í að spila í bestu deildunum í Evrópu að mínu mati.“

Engar frekari breytingar verða á liði Stjörnunnar.

„Þetta verður liðið út mótið,“ segir Baldur ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×