Erlent

Vilja banna tölvuleik byggðan á blóðugustu borg veraldar

Ástandið í borginni er vægast sagt hryllilegt.
Ástandið í borginni er vægast sagt hryllilegt.
Mexíkósk yfirvöld reyna nú að fá lögbann á tölvuleik sem byggir á átökum í einni blóðugustu borg veraldar; Ciudad Juarez sem er í Chihuahua fylkinu í Mexíkó. Leikurinn, sem heitir „Call of Juarez: The Cartel" og er framleiddur fyrir Xbox 360 tölvur mun vera gríðarlega ofbeldisfullur en markmið leiksins er að borgarar taki lögin í sínar hendur.

Meðal sýnishorna úr leiknum má sjá karlmenn vopnaða haglabyssum hefja skothríð á götum borgarinnar. Leikurinn er í anda villta vestursins.

Tölvuleikurinn umdeildi.
Yfirvöld í Mexíkó hafa áhyggjur af leiknum, þá ekki síst þau skilaboð sem honum fylgja, um að taka lögin í sínar eigin hendur.

Þingmaður í fylkinu segir leikinn ekki á ógnaröldin bætandi sem ríkir í borginni. Þá óttast hann ennfremur að leikurinn hafi skaðleg áhrif á börn sem búa í borginni, en meðal þess sem þeim er kennt í skólum, er hvernig skal bregðast við skotárásum fyrir utan skólana þeirra.

Borgin er ein sú hættulegasta í heimi vegna blóðugra uppgjöra fíkniefnabaróna. Árið 2009 og 2010 létust alls sex þúsund manns í tengslum við átök fíkniefnahringja í borginni sem gerir það að verkum að hún er á pari við stríðshrjáðar borgir.

Forsvarsmenn leiksins hafa ekki brugðist við fregnum af fyrirhuguðu lögbanni en leikurinn er framleiddur í San Fransisco í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×