Innlent

Litlir krakkar eiga ekki að þurfa að þvælast milli hverfa

Sigurður Kári sat fund með ósáttum foreldrum í Hólabrekkuskóla á dögunum
Sigurður Kári sat fund með ósáttum foreldrum í Hólabrekkuskóla á dögunum
„Það er ekki í samræmi við þarfir lítilla krakka að þurfa að þvælast á milli hverfa til að komast í skólann," segir Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem er afar ósáttur við sameiningartillögur leik- og grunnskóla, og frístundaheimila í Reykjavík.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag óskaði hann eftir skoðun Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, á þeim tillögum sem fyrir liggja.

Katrín sagði tillögurnar hafa verið sendar ráðuneytinu til umsagnar og býst hún við að umsögn verði skilað í lok vikunnar.

Hún sagðist almennt telja æskilegt að skera sem minnst niður í menntakerfinu, og að í niðurskurði eigi að hlífa börnum og ungmennum. Í þessu sambandi þyrfti hins vegar að taka mið af því að Reykjavíkurborg býr við þröngan fjárhagslegan stakk.

Katrín benti á að sveitarfélög hafi rúmar heimildir, lögum samkvæmt, til að sameina rekstur grunnskóla, leikskóla og frístundaheimila.

Meðal þess sem ráðuneytið hefur nú til skoðunar vegna þeirra hugmynda sem fram hafa komið eru ferðir skólabarna milli hverfa, ólíkar stefnur í leikskólum sem rætt er um að sameina, og samþætting sjónarmiða hjá ólíkum skólastigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×