Meðan að FIH bankinn í Danmörku var í íslenskri eigu virðist bankinn hafa virkað sem peningabaukur fyrir áhættufjárfestingar á vegum manna sem almennt gengu undir nafninu Milljarðamæringaklúbburinn. Þessir menn eru flestir orðnir gjaldþrota í dag eða á leið í þá stöðu.
Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt í blaðinu Berlingske Tidende nýlega. Þar segir að FIH hafi fjármagnað fjárfestingarævintýri þessara manna í þá „glöðu daga" áður en fjármálakreppan skall á árið 2008.
Þannig hafi FIH virkað eins og peningabaukur fyrir áhættufjárfestingar Erik Damgaards á þýska fasteignamarkaðinum og bankinn tók þátt í að fjármagna kaupin á SAS hótelinu í Frankfurt í samvinnu við Peter Forchhammer, Hans Henrik Palm og Henrik Örbekker. Allir þessir menn tilheyrðu klúbbnum á velmektardögum sínum en eru gjaldþrota í dag.
Þessar fjárfestingar eiga stórann þátt í mjög erfiðri stöðu FIH bankans í dag. Um tíma skuldaði Erik Damgaard bankanum 650 milljónir danskra kr. eða hátt í 14 milljarða kr. vegna þýsku fjárfestinganna. Bankinn hefur fengið innan við þriðjung þeirrar upphæðar til baka.
