Financial Times greinir frá því á vefsíðu sinni að William Morrison Supermarkets hafi áhuga á að skoða kaup á verslunarkeðjunni Iceland Foods sem er að mestu í eigu Landsbankans og Glitnis.
William Morrison Supermarkets, eða Morrison, er fjórða stærsta stórmarkaðakeðja Bretlands á sviði matvæla og mun vera að leita að nýjum eignum til að auka umsvif sín. Fram kemur í Financial Times að Dalton Philips forstjóri Morrison, hafi ekki viljað staðfesta áhugann á Iceland. Philips segir að þeir ræði ekki opinberlega um áform sín.
Þá segir í Financial Times að Morrison hafi um 3 miljarða punda, eða um 560 milljarða kr., til umráða til nýrra eignakaupa og geti nýtt sér það fé án þess að það hafði áhrif á lánshæfismat félagsins.
Eins og áður hefur komið fram í fréttum eru verðhugmyndir fyrir Iceland á bilinu einn til einn og hálfur milljarður punda.
Morrison að skoða kaup á Iceland Foods
