Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, þurfti að horfa upp á sína menn tapa 0-1 á heimavelli fyrir Manchester United í kvöld í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
„Þetta var greinilega vítaspyrna og það var það eina sem ég sagði við dómarann eftir leikinn," sagði Carlo Ancelotti þegar hann var spurður út í samskipti sín við dómarann Alberto Undiano Mallenco sem dæmdi ekki augljósa vítaspyrnu þegar Patrice Evra felldi Ramires innan teigs.
„Við spiluðum annars vel í þessum leik en þetta varð erfitt eftir að þeir komust yfir í leiknum því þeir notuðu skyndisóknir sínar mjög vel. Við áttum samt okkar færi, skutum í stöng og svo varði Edwin van der Sar frábærlega frá Fernando Torres," sagði Ancelotti.
„Við fáum nú bara tækifæri til að mæta þeim aftur á Old Trafford. Það verður vissulega erfiður leikur en við unnum þá þar í fyrra þegar við þurftum þess," sagði Ancelotti.
Ancelotti: Unnum á Old Trafford þegar við þurftum þess í fyrra
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
