Óvarlegt virðist að áætla að viðbrögð við neitun í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave eftir rúma viku verði góð þegar horft er til efnahagsumhverfis landsins og samskipta við önnur lönd. Raunar er það svo að lánshæfismatsfyrirtækið Moody?s hefur lýst því yfir að líkur séu á að lánshæfi Íslands verði lækkað í svokallaðan ruslflokk fari svo að nýjum samningi verði hafnað.

Lánveitingar eru tengdar Icesave
Frekari vísbendingar um viðbrögð á lánamarkaði má svo finna í því hvernig Norðurlöndin gerðu lausn Icesave-deilunnar að skilyrði í lánveitingum til Íslands, en um tíma var fjármögnun efnahagsáætlunar landsins í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ekki trygg vegna þessa skilyrðis og tafðist hún nokkuð þess vegna. Norrænu lánin gengu hins vegar í gegn þegar ljóst þótti að nást myndu samningar. Þá má nefna að lán Norræna fjárfestingarbankans (NIB) til Landsvirkjunar vegna Búðarhálsvirkjunar er háð því skilyrði að önnur fjármögnun fáist að smíði virkjunarinnar, en Evrópski fjárfestingarbankinn hefur ítrekað frestað því að taka ákvörðun um lán til virkjunarinnar á meðan Icesave deilan er óleyst.
Fari hins vegar svo að lánshæfiseinkunn Íslands hjá alþjóðlegu matsfyrirtækjunum lækki eftir að samningi yrði hafnað þá kynnu afleiðingarnar að verða víðtækar. Seðlabankinn hefur meðal annars sagt að nei í kosningunni muni seinka aðgerðum á seinni stigum í afléttingu gjaldeyrishafta. Í samtölum við sérfræðinga greiningardeilda bankanna kemur fram að erlendu matsfyrirtækin virðist telja að Ísland sitji uppi með Icesave-kostnaðinn hvernig sem fer í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Erlendir fagfjárfestar eru síðan bundnir af lánareglum sem gera þeim ómögulegt að fjárfesta í skuldabréfum undir einhverri ákveðinni lánshæfiseinkunn. Því sé það svo að þótt lánshæfismatsfyrirtækin hafi gert alvarleg mistök og beri að hluta ábyrgð á alþjóðlegu fjármálakreppunni, þá sé ekki annað kerfi við lýði til að meta lánshæfi ríkja og stórfyrirtækja. Að deila við lánshæfismatsfyrirtækin er sagt vera eins og að deila við dómarann.
Stjórnmálaóstöðugleiki skaðar
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og formaður stjórnar Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki við Háskóla Íslands, segir ljóst að verði Icesave-samningnum hafnað þá haldi ekki samningar ríkisstjórnarinnar með samþykki Alþingis. „Það yrði alvarlegt áfall fyrir orðspor Íslands og hefur ekkert með þessa ríkisstjórn að gera," segir hann, en Baldur er jafnframt varaþingmaður Samfylkingarinnar. Hann veltir fyrir sér hvernig erlend stjórnvöld eigi að geta treyst samningum við ríkisstjórn Íslands ef forsetinn gengur ítrekað gegn vilja hennar og Alþingis. „Ég held að þetta hafi veruleg áhrif á traust á íslensk stjórnmál, efnahagslíf og fyrirtæki. Menn eru ekki vanir því í hinum vestræna heimi að ríkisstjórnir hlaupist undan ábyrgð og samningum bara þegar hentar þeim. Menn geta verið andvígir samningum, neitað að skrifa undir þá og fara eftir þeim. En að gerðir séu samningar við ríkisstjórnir sem síðan geta ekki framfylgt þeim er dálítið öðruvísi."

Baldur lýsir því hins vegar svo að hér sé komin upp stjórnarskrárkrísa með ákvörðunum forseta um að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu með þessum hætti. „Eftir þessa ákvörðun forsetans þá átta menn sig ekki á stjórnskipan Íslands. Og það er alltaf erfitt þegar erlendir aðilar, sem við þurfum að eiga í nánum samskiptum við, upplifa að hér sé stjórnmálaóstöðugleiki." Þó svo að þessi stjórnskipulega óvissa verði áfram til staðar þótt samningurinn verði staðfestur segir Baldur að hún ágerist verði samningi hafnað. „Því þá er forsetinn að stöðva málið endanlega og búinn að koma í veg fyrir að íslensk stjórnvöld leysi málið með samningi og hefur með ákvörðun sinni komið málinu í dómsstólsleið."