Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hrósaði þýska landsliðsmarkverðinum Manuel Neuer mikið eftir 2-0 sigur United á Schalke í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeildinni í Þýskalandi í kvöld. Manuel Neuer hélt Schalke á floti fyrsta klukkutíma leiksins en United náði síðan að skora tvö mörk á tveimur mínútum á 67. og 69. mínútu leiksins og tryggja sér góðan sigur.
„Ég held að þegar Chicharito skoraði í stöðunni 0-0 og var dæmdur rangstæður þá hafi hann sýnt hinum í liðinu að það var hægt að skora hjá þessum markverði," sagði Sir Alex Ferguson við BBC eftir leikinn.
Javier Hernandez skoraði þá laglegt mark á 51. mínútu leiksins en var réttilega dæmdur rangstæður.
„Neuer var frábær í þessum leik og ég tel að þetta hafi verið ein af bestu frammistöðum leikmanns sem ég hef séð í leik á móti Manchester United," sagði Ferguson.
Sir Alex: Ein af bestu frammistöðum leikmanns á móti Man. United
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
