Pep Guardiola, stjóri Barcelona, lofaði lið Manchester United í hástert en þessi lið munu einmitt eigast við í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í lok mánaðarins.
Barcelona er aðeins einu stigi frá titlinum á Spáni eftir 2-0 sigur á Espanyol um helgina. Slíkt er einnig tilfellið hjá Manchester United í ensku úrvalsdeildinni eftir 2-1 sigur á Chelsea í gær.
Guardiola sagði að United væri með einstakt lið. „Þeir spiluðu í leik í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu (gegn Schalke á heimavelli) með varaliðinu sínu en unnu samt 4-1. Það segir allt sem maður þarf að vita um styrk liðsins.“
„Félagið er með frábæran leikmannahóp og marga ótrúlega leikmenn. Þeir geta í raun stillt upp tveimur sterkum liðum.“
Guardiola ætlar þó að klára deildina heima áður en hann fer að hugsa um úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
„Við ætlum að ljúka okkar málum í deildinni og svo förum við að hugsa um úrslitaleikinn.“

