Kevin Durant og Russell Westbrook fóru á kostum með liði Oklahoma City Thunder í öruggum 15 stiga sigri á Memphis Grizzlies, 105-90, í nótt í hreinum úrslitaleik liðanna um sæti í úrslitum Vesturdeildarinnar. Báðir komust í hóp með kunnum köppum með frammistöðu sinni.
Kevin Durant skoraði 39 stig í leiknum og Russell Westbrook var með þrefalda tvennu, 14 stig, 14 stoðsendingar og 10 fráköst. Durant skoraði 21 af 39 stigum sínum í þessum leik eftir stoðsendingar frá Westbrook.
Síðustu tvö tvíeyki til þess að skila svona tölum í leik í úrslitakeppninni voru Kareem Abdul-Jabbar og Magic Johnson annarsvegar (Los Angeles Lakers, 1980) og þeir Michael Jordan og Scottie Pippen hinsvegar (tvisvar sinnum með Chicago Bulls, 1992-93).
Westbrook varð aðeins fimmti leikmaðurinn í sögu NBA sem nær þrefaldri tvennu í sjöunda leik en hinir eru Jerry West (1969), Larry Bird (1984), James Worthy (1988) og Scottie Pippen (1992).
Það hafa ennfremur aðeins þrír leikmenn skoraði fleiri stig í sínum fyrsta "Sjöunda leik" í úrslitakeppni en það eru þeir Dominique Wilkins (47 stig fyrir Atlanta Hawks á móti Boston 1988), Oscar Robertson (43 stig fyrir Cincinatti Royals á móti Boston Celtics) og Calvin Murphy (42 stig fyrir Houston Rockets á móti San Antonio Spurs 1981).
Oklahoma City Thunder mætir Dallas Mavericks í úrslitum Vesturdeildarinnar og hefst einvígið með leik eitt í Dallas annað kvöld.
