Jónas Guðni Sævarsson og félagar hans í Halmstad unnu í dag sinn fyrsta leik í sænsku úrvalsdeildinni en leikið var víða í Evrópu í dag.
Jónas Guðni lék allan leikinn er Halmstad vann 1-0 sigur á Mjällby í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Jónas Guðni nældi sér í gult spjald snemma í síðari hálfleik.
Halmstad lyfti sér úr botnsæti deildarinnar með sigrinum en liðið er nú með fimm stig í fimmtánda og næstneðsta sæti deildarinnar.
Í skosku úrvalsdeildionni tapaði Hibernian, 3-1, fyrir Aberdeen á heimavelli. Guðlaugur Victor Pálsson kom inn á sem varamaður á 65. mínútu.
Hibernian hefur nú tapað fjórum leikjum í röð og sex af síðustu átta leikjum sínum. Liðið er í tíunda sæti deildarinnar og er ekki í fallhættu.
Rúrik Gíslason kom ekki við sögu er lið hans, OB í Danmörku, vann 2-1 útisigur á Randers. Sigurmarkið kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
