Landsframleiðsla Þýskalands jókst um 1,5% á fyrsta ársfjórðungi ársins m.v. fjórðunginn á undan. Ef miðað er við sama tímabil í fyrra er vöxturinn tæp 5% þegar tekið hefur verið tillit til verðbólgu. Þýska aflvélin á evrusvæðinu keyrir því áfram af fullum krafti þessa dagana.
Þessi vöxtur landsframleiðslunnar í Þýskalandi hefur komið sérfræðingum á óvart að því er segir í umfjöllun vefsíðunnar e24.no um málið. Þeir áttu von á vexti upp á 0,9% á ársfjórðungnum og 4,2% milli ára.
„Þýskur efnahagur sýnir mjög sterkan undirliggjandi vöxt og hagkerfið stefnir á nýtt Wirtschaftswunder,“ segir Carsten Brzeski aðalhagfræðingur ING. Wirtschaftswunder er orðið sem gjarnan var notað um gífurlegan hagvöxt Þýskalands á árunum upp úr 1950.
Þýska aflvélin keyrir áfram af fullum krafti
