Dallas hefur unnið 10 af síðustu 11 leikjum sínum í úrslitakeppninni og er komið í úrslitin í fyrsta sinn síðan 2006.
„Við eigum þegar einn svona bikar og þetta er ágætt í dag. Markmiðið okkar í október var að fara alla leið og við erum ekki búnir að uppfylla það ennþá. Það er frábært að vera kominn aftur í úrslitin og vonandi getum við klárað titilinn núna," sagði Dirk Nowitzki en hann fór með Dallas alla leið í úrslitin fyrir fimm árum síðan þegar liðið tapaði fyrir Miami Heat. Dallas komst þá í 2-0 í einvíginu en tapaði því síðan 2-4.
Það hefur tekið liðið langan tíma að jafna sig eftir það enda hafði það fyrir þetta tímabilið aðeins unnið eitt einvígi í úrslitakeppninni.

Dallas vann lokakaflann 14-4 og tryggði sér sigur í Vesturdeildinni og sæti í lokaúrslitunum. Nowitzki, Jason Kidd, Shawn Marion og Jason Terry voru allt í öllu á lokamínútunum.
Dirk Nowitzki og Shawn Marion voru stigahæstir hjá Dallas með 26 stig. Marion skoraði 15 þeirra í fjórða leikhlutanum og Nowitzki skoraði 9 stiga sinna í þeim fjórða. Nowitzki var með 32,2 stig að meðaltali í einvíginu þar af 11,8 stig að meðaltali í lokaleikhlutanum.
„Þeirra tími mun koma en hann var ekki núna. Okkur líður eins og núna sé okkar tími runninn upp," sagði Rick Carlisle, þjálfari Dallas.
Elsti leikmaður byrjunarliðs Oklahoma City er 27 ára en yngsti leikmaður byrjunarliðs Dallas er 28 ára. Þessi tölfræði segir margt um muninn á reynslu þessara tveggja liða.

„Það er ekki hægt að hoppa yfir þrep í ferlinu. Við verðum allir að verða betri og þar er ég líka meðtalinn," sagði Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder.
Russell Westbrook skoraði 31 stig fyrir Oklahoma City og þeir Kevin Durant og James Harden voru með 23 stig hvor.

„Það er mikill bónus að fá auka hvíld á þessum tíma ársins. Það var mjög stórt fyrir okkur að ná að klára þetta í þessum leik," sagði Kidd sem fór tvisvar sinnum í úrslitin með New Jersey Nets árin 2002 og 2003.