Dirk Nowitzki skoraði 12 stig á síðustu 4 mínútum og 49 sekúndum leiksins sem Dallas-liðið vann 17-2. „Þetta var næstum því búið. Við máttum ekki klikka einu sinni í viðbót eða missa ef einu frákasti. Við spiluðum næstum því fullkomlega á þessum kafla," sagði Nowitzki.
Dallas-liðið vann því báða leikina í Oklahoma City, er komið í 3-1 í einvíginu og getur tryggt sér sæti í lokaúrslitunum með sigri á heimavelli í næsta leik. Dallas er nú búið að vinna fimm útileiki í röð í úrslitakeppninni.

Dirk Nowitzki skoraði 40 stig fyrir Dallas en hann hitti úr 12 af 20 skotum sinum og úr 14 af 15 vítum. Jason Terry skoraði 20 stig og Jason Kidd var með 17 stig, 7 stoðsendingar og 4 stolna bolta.
„Dirk Nowitzki var frábær en ég er aðallega svekktur út í sjálfan mig og ég brást liðinu. Ég brást allri borginni," sagði Kevin Durant eftir leikinn.

Serge Ibaka var með 18 stig og 10 fráköst fyrir Oklahoma City og Russell Westbrook bætti við 19 stigum, 8 fráköstum og 8 stoðendingum.
Þeir Durant og Westbrook hittu aðeins úr 16 af 44 skotum saman, töpuðu auk þess 15 boltum saman og skoruðu ekki eitt einasta stig í framlengingunni.
„Þetta var mjög svekkjandi tap en menn verða bara að taka þessu eins og menn og halda áfram. Við verðum að bara að hlaða batteríin og einbeita okkur að því að vinna einn leik," sagði Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City.