Neyðarleg innsláttarvilla á fjármálagerningum sem Goldman Sachs setti til sölu í kauphöllinni í Hong Kong mun að öllum líkindum kosta bankann 45 milljónir dollara eða ríflega 5 milljarða kr.
Fjallað er um málið í dálknum Alphaville í Financial Times. Þar segir að fjármálagerningar þessir hafi verið settir á markað í febrúar en kauphöllin í Hong Kong hefur lokað fyrir viðskipti með þá meðan reynt er að greiða úr flækjunni.
Samkvæmt Alphaville ætti formúlan til að loka þessum gerningum að vera:
(Closing Level – Strike Level) x Index Currency Amount / Exchange Rate.
Í rauninni lítur formúlan svona út:
(Closing Level – Strike Level) x Index Currency Amount x Exchange Rate
Það sem hefur gerst hér er að í staðinn fyrir að deila í með gjaldeyrisskráningunni er skráningin notuð til margföldunar. Þetta þýðir að Goldman Sachs hangir nú til þerris með 350 milljónir Hong Kong dollara í skuld í stað þeirra 10 milljóna HK dollara sem hann ætti að skulda fjárfestunum ef formúlan hefði verið rétt sleginn inn.
Það eru alls 124 fjárfestar sem halda á fyrrgreindum fjármálagerningum og hefur Goldman Sachs boðið þeim að kaupa þá alla til baka með 10% bónusgreiðslu ofan á nafnverð og greiðslu á viðskiptakostnaðinum. Það tilboð hefur fallið í grýttan jarðveg meðal fjárfestanna.
Innsláttarvilla kostar Goldman Sachs 5 milljarða
