Umboðsmaður Bojan Krkic leikmanns Barcelona segir félagið í viðræðum við Udinese á Ítalíu um hugsanleg vistaskipti kappans. Möguleiki er á að leikmaðurinn fari sem hluti af líklegum kaupum Barcelona á Alexis Sanchez frá ítalska félaginu.
„Ég veit að Barcelona og Udinese eiga í viðræðum en ég veit ekki smáatriðin. Hvort um kaup sé að ræða eða skipti á leikmönnunum.“
Framherjinn tvítugi sem á ættir sínar að rekja til Serbíu hefur fengið fá tækifæri með Evrópumeisturunum undanfarin misseri. Auk Udinese er Roma sagt vilja tryggja sér kappann. Nýr þjálfari Roma er Spánverjinn Luis Enrique fyrrum þjálfari b-liðs félagsins.
