Golden State Warriors hefur ráðið Mark Jackson sem þjálfara NBA liðsins en hann hefur aldrei þjálfað NBA lið áður. Jackson lék í 17 ár sem leikstjórnandi í deildinni með New York, Clippers, Indiana, Denver, Toronto, Utah og Houston. Á undanförnum árum hefur hann starfað sem körfubolta sérfræðingur í sjónvarpi. Jackson er þriðji á lista yfir stoðsendingahæstu leikmenn NBA deildarinnar frá upphafi en hann var valinn nýliði ársins vorið 1988.
Keith Smart, sem þjálfaði liðið á síðustu leiktíð, var rekinn á dögunum af nýjum eigendum liðsins sem ætlar sér stóra hluti í framtíðinni.
Jackson er 46 ára gamall og gerði hann þriggja ára samning. Hann mun fá um 700 milljónir kr. í laun á samningstímanum. Jerry West, sem lagði grunninn að velgengni LA Lakers á árum áður sem framkvæmdastjóri liðsins, settist nýverið í stjórn Golden State og er West sannfærður um að Jackson sé rétti maðurinn í starfið þrátt fyrir að hann hafi enga reynslu sem þjálfari.
Jackson mun þjálfa Golden State
Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
