Sport

Óeirðir í Vancouver eftir sigur Bruins í Stanley Cup

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Boston Bruins sigraði Vancouver Canucks 4-0 í oddaleik um Stanley-bikarinn í íshokkí í Vancouver í nótt. Það er óhætt að segja að stuðningsmenn heimaliðsins hafi tekið tapinu illa. Slagsmál brutust út á götum Vancouver og þurfti að kalla til óeirðarlögreglu sem beitti táragasi.

Sigur Bruins kom nokkuð á óvart en Canucks þóttu sigurstranglegri fyrir úrslitaeinvígið. Leikurinn var sá sjöundi í afar spennandi úrslitaeinvígi þar sem hvort lið hafði unnið heimaleiki sína þrjá. Canucks var með besta árangurinn í deildarkeppninni og hafði því heimaleikjaréttinn. Liðið mætti þó ofjörlum sínum í gær.

Markvörður Bruins, Tim Thomas, átti stórleik. Hann varði öll 37 skot Kanada-liðsins og var valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar.

Þetta er í fyrsta sinn í 39 ár sem Bruins tekst að landa titlinum en félagið er eitt sex sem voru til við stofnun NHL-deildarinnar. Canucks töldu sig eiga góða möguleika að landa sínum fyrsta titli í sögunni. Vonbrigðin leyndu sér ekki meðal stuðningsmannanna sem bauluðu hástöfum við bikarafhendinguna í leikslok.

Nokkrir stuðningsmenn Canucks gengu skrefinu lengra á götum Vancouver að leik loknum. Rúður voru brotnar, bílum velt og glerflöskum kastað í átt að lögreglumönnum. Kalla þurfti til óeirðarlögregluna sem beitti táragasi til þess að sundra mannfjöldanum.

„Það var mjög niðurdrepandi að sjá ofbeldið í miðbæ Vancouver eftir leikinn. Vancouver er borg í heimsklassa og ofbeldið og óeirðirnar eru til skammar,“ sagði Gregor Robertson borgarstjóri Vancouver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×