Fótbolti

Viviano til Inter eftir klúður hjá Bologna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Viviano varð næstum fyrir blysi í landsleik Ítala og Serba síðastliðið haust
Viviano varð næstum fyrir blysi í landsleik Ítala og Serba síðastliðið haust Mynd/AFP Nordic
Ítalski landsliðsmarkvörðurinn Emiliano Viviano er orðinn leikmaður Inter. Þar til í gær var hann í sameiginlegri eigu Bologna og Inter. Ótrúleg mistök framkvæmdastjóra Bologna urðu til þess að félagið missti leikmanninn úr höndum sér.

Í gær rann út frestur félaga með leikmenn í sameiginlegri eigu að ganga frá sínum málum. Bologna og Inter hafði ekki tekist að koma sér saman um kaupverð á Viviano og var því efnt til blinds uppboðs. Fjölmörg slík fóru fram fyrir helgi og niðurstöðurnar birtar í dag.

Fulltrúar beggja félaga skrifuðu hvaða upphæð þeir væru tilbúnir að greiða fyrir leikmanninn og settu í lokað umslag. Umslögin voru svo opnuð í morgun. Það félag sem væri tilbúið að greiða hærri upphæð fyrir leikmanninn hlyti hann.

Stefano Pedrelli framkvæmdastjóri Bologna virðist hafa gert stór mistök í aðdragana uppboðsins. Hann fyllti eyðublöðin rangt út, fyllti út vitlausa hlið auk þess, sem verra er, hann skrifaði ranga upphæð.

Í stað þess að skrifa 4.7 milljónir evra, verðið sem Bologna mat Viviano á, skrifaði hann aðeins hálfa þá upphæð þar sem Viviano væri aðeins að hálfu í eigu Bologna. Slæmur misskilningur sem kostaði Bologna leikmanninn.

Forsvarsmenn Inter skrifuðu 4.1 milljón evrur og greiða Bologna þá upphæð. Viviano er því alfarið leikmaður Inter frá og með deginum í dag.

Talið er að Bologna hafi þegar verið búið að gera samkomulag við Roma um að selja Viviano til höfuðborgarliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×