Tryggingasjóður innistæðueigenda í Bretlandi (FSCS) hefur endurheimt 614 milljónir punda eða ríflega 113 milljarða kr. frá Kaupthing Singer & Freidlander (KSF) dótturbanka Kaupþings í London.
Þetta kemur fram á vefsíðunni MoneyMarketing. Þar segir að þar að auki hafi FSCS endurheimt 99 milljónir punda eða rúmlega 18 milljarða kr. frá Heritable Bank, dótturbanka Landsbankans í London.
Upplýsingarnar kom fram í árskýrslu FSCS þar sem segir að alls hefur sjóðurinn á síðasta reikningsári sínu endurheimt 756 milljónir punda frá þeim fjármálafyrirtækjum sem féllu árið 2008.
Fram kemur að auk KSF og Heritable komi þessar endurheimtur frá Bradford & Bingley, Landsbankanum og London Scottish Bank.
Á vefsíðunni segir að þessar endurheimtur muni létta á þeim skuldum sem FSCS tók á sig í fjármálahruninu. Bresk stjórnvöld þurftu að lána sjóðnum stórar upphæðir svo sjóðurinn gæti greitt út innistæður almennings í þeim bönkum sem féllu.
