Shaquille O´Neal ætlar ekki að sitja auðum höndum næsta vetur þó svo skórnir séu farnir upp í hilluna góðu. Shaq er búinn að skrifa undir samning við TNT og verður með þeim Charles Barkley og Kenny Smith í þættinum Inside the NBA.
Þátturinn hefur notið mikilla vinsælda og bíða margir spenntir eftir því að sjá hvernig Shaq nær saman við Barkley sem hefur farið á kostum sem sjónvarpsmaður.
Margir eru á þeirri skoðun að þeir muni engan veginn ná saman og þessi tilraun eigi eftir að deyja fljótt. Það kemur í ljós í vetur ef það verður spilaður einhver NBA-bolti yfir höfuð.
