Golf

Tiger Woods mætir til leiks á ný eftir 3 mánaða hvíld

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods tilkynnti í gær að hann ætlaði sér að vera með á Bridgestone meistaramótinu sem hefst á fimmtudaginn í næstu viku. Woods hefur ekkert keppt í golfi undanfarnar 11 vikur vegna meiðsla í hné og hásin. Á þessum tíma hefur hann misst af tveimur stórmótum, opna bandaríska meistaramótinu og opna breska.

Í Twitter færslu segir Woods að hann sé tilbúinn í slaginn. „Ég er tilbúinn að mæta til leiks á Firestonevöllinn í næstu viku og ég hlakka til þess."

Woods hefur aðeins tvívegis áður verið lengur frá keppni vegna meiðsla á ferlinum. Margir eru farnir að efast um að hann nái fyrri styrk og getu. Woods er ekki lengur á meðal 20 efstu á heimslistanum og hefur ekki unnið golfmót frá árinu 2009. Hann sagði aðstoðarmanni sínum Stevie Williams upp störfum á dögunum og margir velta því fyrir sér hver fær það hlutverk að fylla hans skarð.

Woods var ekki sáttur við að Williams fór var aðstoðarmaður hjá Ástralanum Adam Scott á AT&T meistaramótinu án þess að óska eftir leyfi til þess að gera það. Woods hafði gefið grænt ljós á að Williams yrði aðstoðarmaður Scott á opna bandaríska meistaramótinu.

Fréttamenn Golf Channel telja sig hafa heimildir fyrir því að Bryon Bell verði aðstoðarmaður Woods en hann hefur verið vinur hans frá barnæsku – og hann er framkvæmdastjóri Tiger Woods Design. Bell hefur þrívegis verið í því hlutverki og árið 1999 vann Woods Buick meistaramótið með Bell á „pokanum".

Mark Steinberg umboðsmaður Woods segir að kylfingurinn hafi leyst „kaddý" málin til skemmri tíma en engin langtímalausn hafi verið fundinn.

Hefur ekki verið neðar á heimslistanum frá árinu 1997
Woods er í 21. sæti heimslistans og hefur ekki verið neðar á þeim lista frá því í janúar árið 1997. Það eru 20 mánuðir frá því hann vann mót síðast, en það gerði hann í Ástralíu í nóvember 2009. Skömmu eftir þann sigur komst upp um tvöfalt líferni Woods þar sem að framhjáhald hans til margra ára varð helsta fréttaefnið í heiminum.

Bandaríski kylfingurinn keppti síðast á Players meistaramótinu á TPC Sawgrass vellinum í maí s.l. en hann hætti keppni eftir aðeins 9 holur á fyrsta keppnisdegi. Þá hafði hann leikið á 5 höggum yfir pari.

Woods hefur aðeins tvö mót til þess að bæta stöðu sína á FedEx stigalistanum en þar er hann í 133. sæti. Aðeins 125 efstu á þeim lista komast í úrslitakeppnina og nái hann ekki þar inn þarf hann að bíða í fimm vikur á hliðarlínunni á meðan sú keppni fer fram í haust.

Firestone völlurinn er eflaust í uppáhaldi hjá Woods. Alls hefur hann sigrað sjö sinnum á þessu móti. Á síðasta ári endaði hann hinsvegar í 78. sæti af alls 80 keppendum en fram að þeim tíma hafði hann aldrei endað neðar en í fimmta sæti á þessu móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×