Golf

Ólafur Björn: Er fullur sjálfstrausts

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Björn Loftsson, kylfingur.
Ólafur Björn Loftsson, kylfingur. Nordic Photos / Getty Images
Ólafur Björn Loftsson, sem nú keppir á Wyndham-mótinu á bandarísku atvinnumannaröðinni, var ánægður að loknum fyrsta keppnisdeginum.

Ólafur Björn lék á tveimur höggum undir pari eftir að hafa fengið skramba á fyrstu holu. Hann var fljótur að jafna sig á því og fékk þrjá fugla á næstu fimm holum.

Hann er sem stendur í 32.-57. sæti af rúmlega 150 kylfingum og því í góðri stöðu fyrir niðurskurðinn á morgun. Þá hefur hann leik klukkan 17.50 að íslenskum tíma.

„Ég hef engu að tapa í þessu móti og spilaði grimmt. Ég notaði driver á öllum holum nema einni og hitti allar brautir nema tvær."

„Svo var sjálfstraustið gott hjá mér, ég var að koma mér í mörg fuglafæri og náði að setja niður nokkur góð pútt. Það vantaði reyndar aðeins upp á það á seinni níu en ég var samt að koma mér í góða sénsa."

„Þetta hefði alveg getað verið enn betri hringur hjá mér í dag og er ég því fullur sjálfstrausts fyrir morgundaginn."

Nánar er rætt við Ólaf Björn í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×