Sölvi Geir Ottesen og félagar í FCK Kaupmannahöfn fengu að heyra það í dönsku fjölmiðlunum í morgun eftir 1-3 tap á móti tékkneska liðinu Viktoria Plzen í fyrri leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar.
Möguleikar FCK eru því ekki miklir í seinni leiknum í Tékklandi og nokkuð ljóst að það verður ekkert Meistaradeildarævintýri í Kaupmannahöfn þennan veturinn.
„FC Katastrofe" var fyrirsögnin í BT og í mörgum hinna kom orðið „fíaskó" oftast fyrir í flestum fyrirsögnunum. Leikmenn fengu harða gagnrýni og þá sérstaklega norski miðjumaðurinn Christian Grindheim og sóknarmaðurinn Pape Pate Diouf.
Sölvi Geir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í leiknum en bætti fyrir það með því að skora einnig í rétt mark seinna í leiknum. Það er hægt að sjá mörkin á netinu. Hér er mark Sölva sem var flott skallamark eftir horn en hér má síðan sjá sjálfsmarkið.
Þetta tap hafði einnig alvarleg áhrif á Hlutabréf FCK sem féllu um þrettán prósent þegar markaðurinn opnaði í morgun.
Hlutabréf FCK í frjálsu falli í morgun vegna tapsins í gær
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
