Matsfyrirtækið Moody's hefur lækkað lánshæfiseinkunn Japans um eitt stig eða úr Aa2 og niður í Aa3. Horfur eru sagðar stöðugar. Samhliða þessu lækkaði Moody´s lánshæfiseinkunnir nokkurra stórra banka í Japan.
Það er einkum viðvarandi hallarekstur á ríkissjóði lands og vaxandi opinberar skuldir sem valda því að lánshæfiseinkunnin var lækkuð.
Markaðir tóku þessum tíðindum illa. Hækkanir höfðu verið í gangi í kauphöllunum í Tókýó og Hong Kong í nótt í samræmi við uppsveifluna í Bandaríkjunum og Evrópu. Þessi þróun snérist við eftir tilkynningu Moody´s og endaði Nikkei vísitalan í mínus 1% og Hang Seng vísitalan í mínus 2%.
Moody´s lækkar lánshæfismat Japans
