Golf

J.B. Holmes á leiðinni í heilaskurðaðgerð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Holmes slær úr glompu.
Holmes slær úr glompu. Nordic Photos/AFP
Bandaríski kylfingurinn J.B. Holmes gengst í næstu viku undir heilaskurðaðgerð. Holmes var nýlega greindur með „Chiari malformation", sem er galli í þeim stöðvum heilans sem stýra jafnvægisskyni.

Holmes hefur liðið afar illa undanfarna mánuði. Ógleði, svimi, höfuðverkur, sjóntruflanir og slæmt jafnvægisskyn eru meðal þeirra fylgikvilla sem hann hefur fundið fyrir. Holmes er létt að búið sé að greina hvað sé að hjá honum.

„Það er léttir að vita að það sé til heiti á því sem ég hef glímt við undanfarna mánuði og að ég eigi góðan möguleika á að snú aftur í golfið og lifa eðlilegu lífi," sagði Holmes.

Holmes gengst undir aðgerðina á hinu fræga John Hopkins sjúkrahúsi í Baltimore í næstu viku. Það er ekki að heyra á Holmes að hann kvíði aðgerðinni.

„Ég veit að fólk fær alls konar myndir í hausinn þegar það heyrir minnst á heilaskurðaðgerð. En aðgerðinni fylgir lítil áhætta og hún tekur aðeins eina og hálfa klukkustund," sagði Holmes.

Holmes, sem er afar högglangur kylfingur, hefur spilað á PGA-mótaröðinni frá árinu 2003 og verið meðal tíu efstu í fimm mótum á þessu ári. Heildartekjur hans á árinu eru 1.4 milljónir dollara eða sem nemur um 160 milljónum íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×