Hafþór Harðarson vann til bronsverðlauna á Evrópubikarmóti einstaklinga í Lahtli í Finnlandi um helgina. Þetta er besti árangur Íslendings á Evrópubikarmóti.
Þátttökurétt á Evrópubikarmótinu fá landsmeistarar hvers lands. Fjörutíu keppendur tóku þátt í Lahti þar sem keppt var við tvær ólíkar aðstæður.
Annars vegar var keppt með stuttum olíuburði og hins vegar með löngum olíuburði. Misjafnt er hve langir burðirnir eru en í Lahti voru þeir 35 fet (10,7 metrar - stuttur burður) og 45 fet (13,7 metrar - langur burður).
Fyrsta dag forkeppninnar var keppt í stuttum olíuburði þar sem Hafþóri gekk ekki sérstaklega vel. Fékk 186,5 stig að meðaltali í átta leikjum.
Annan daginn, í löngum olíuburði, fékk Hafþór 230 stig að meðaltali og átti meðal annars stigahæsta leik mótsins þegar hann fékk 290 stig. Að loknum öðrum degi var Hafþór í 3. sæti.
Þriðja daginn var spilað í blönduðum burði, ein braut með löngum olíuburði og önnur með stuttum. Hafþór fékk 197 stig að meðaltali og hafnaði í 5. sæti samanlagt en átta efstu komust í úrslitakeppnina.
Hafþór lagði Skotann Mark Kerra í átta-liða úrslitum 2-1 en beið lægri hlut fyrir Rússanum Ivan Semenov í undanúrslitum. Hafþór hafnaði því í 3-4. sæti en þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur vinnur til verðlauna á Evrópubikarmóti.
Hafþór fékk brons á Evrópubikarnum í keilu
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Mest lesið


Afturelding mætir Val í undanúrslitum
Handbolti


„Erum á uppleið og ætlum að halda áfram“
Körfubolti



Íslendingalið Birmingham upp í B-deild
Enski boltinn



Sjáðu þrennu Karólínu Leu
Fótbolti