Sport

Djokovic og Federer mættast í fjórða sinn í röð í undanúrslitum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic og Roger Federer.
Novak Djokovic og Roger Federer. Mynd/Nordic Photos/Getty
Novak Djokovic og Roger Federer munu mætast í undanúrslitum á opna bandaríska meistaramótinu í tennis og er þetta fjórða mótið í röð þar sem leiðir þessara frábæru tennisspilara liggja saman í undanúrslitum en ekki í úrslitum.

„Þú getur ekki fundið erfiðari mótherja í tennis í dag en Djokovic. Ég er samt klár í þetta verkefni," sagði Roger Federer sem er á eftir sínum sjötta sigri á bandaríska meistaramótinu.

Þeir félagar mættust síðast í París og þar endaði Federer 43. leikja sigurgöngu Novak Djokovic. „Ég veit ekki hvort það sem gerðist í París muni hjálpa mér eða honum. Það var frábær leikur og mjög sérstakur sigur," sagði Federer. Djokovic komst í úrslitaleikinn á þessu móti í fyrra en tapaði þá fyrir Spánverjanum Rafael Nadal.

Serbinn Novak Djokovic vann landa sinn Janko Tipsarevic í átta manna úrslitum en Federer sló út Jo-Wilfried Tsonga frá Frakklandi. Það kemur ekki í ljós fyrr en í dag hverjir mætast í hinum undanúrslitaleiknum. John Isner mætir þá Andy Murray og Andy Roddick spilar við Rafael Nadal.

Í undanúrslitum kvenna mætast annars vegar Caroline Wozniacki frá Danmörku og Serena Williams frá Bandaríkjunum og hinsvegar Angelique Kerber frá Þýskalandi og Samantha Stosur frá Ástralíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×