NBA-deildin og dómarar deildarinnar komu sér saman um nýjan fimm ára samning í nótt en það á síðan enn eftir að koma í ljós hvort dómararnir fái að dæma einhverja leiki í vetur því verkfall í NBA er enn í fullum gangi.
NBA-deildin átti fyrir tveimur árum í deilum við dómara um kaup og kjör og þá munaði litlu að NBA-deildin þyrfti að byrja nýtt tímabil án sinna viðurkenndu dómara. Svo fór nú aldrei og nú er langtíma samningur í höfn. Dómararnir vildu bara gera tveggja ára samning árið 2009 og vonuðust líklega til að fá meira í gegn í þessum viðræðum.
„Við fengum ekki allt sem við vildum en miðað við efnahagsástandið og verkfallið í NBA-deildinni þá erum við sáttir og sannfærðir um að þetta hafi verið það besta í stöðunni fyrir okkar félagsmenn," sagði Lee Seham formaður samtaka NBA-dómara.
