Kolbeinn Sigþórsson og félagar í Ajax sækja stórlið Real Madrid heim í Meistaradeildinni annað kvöld. Goðsögnin Johan Cruyff segir að Ajax geti vel strítt spænska risanum.
Liðin mættust einnig í fyrra og þá hafði Madrid mikla yfirburði og vann sannfærandi 2-0 sigur.
"Venjulega á Ajax að lenda í miklum vandræðum í Madrid. Aftur á móti er formið á liði Real Madrid þannig að allt er hægt. Það hefur verið óstöðugleiki í þeirra leik og allir sjá að það fer í taugarnar á þeim," sagði Cruyff.
"Ajax þarf samt að vera mjög skipulagt. Ég sé vel fyrir mér að liðið fái einhver færi. Miðverðir Madrid eru góðir í að dekka en staðsetningarnar eru ekki alltaf góðar. Það er þeirra akkilesarhæll og Ajax gæti nýtt sér það."
