Fótbolti

Sergio Aguero segist vera alsaklaus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero fagnar hér sigurmarki sínu.
Sergio Aguero fagnar hér sigurmarki sínu. Mynd/AFP
Argentínumaðurinn Sergio Aguero bjargaði líklega Meistaradeildartímabili Manchester City í gærkvöldi þegar hann skoraði sigurmark liðsins í uppbótartíma á móti spænska liðinu Villarreal. Þetta var jafnframt fyrsti sigur City-liðsins í Meistaradeildinni frá upphafi.

Eftir leikinn kom upp gagnrýni á Aguero fyrir að hæðast að vonsviknum leikmönnum Villarreal eftir að hann skoraði þetta dýrmæta mark en leikmenn spænska liðsins voru nokkrum sekúndum frá því að ná í stig og halda sér á lífi í riðlinum.  

„Ég hef engan áhuga á að blanda mér í svona umræðu en ég vil bara að það komi fram að ég hæddist aldrei að leikmanni Villarreal. Það geta allir vitnað um aga og fagmennsku mína og þeir hinir sömu vita að ég myndi aldrei gera svona," sagði Sergio Aguero.

Sergio Aguero hefur verið að glíma við meiðsli en kom inn á sem varamaður í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×