Start vann í kvöld 3-1 sigur á Brann eftir að hafa lent marki undir. Start fékk þar með þrjú afar dýrmæt stig í fallbaráttu deildarinnar en liðið er þó enn í fallsæti þegar lítið er eftir af tímabilinu.
Haraldur Freyr Guðmundsson spilaði allan leikinn í liði Start sem er nú með 24 stig í næstneðsta sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir næsta liði. Tvö neðstu liðin falla í B-deildina en fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu.
Birkir Már Sævarsson var að venju í byrjunarliði Brann og spilaði hann allan leikinn sem hægri bakvörður. Brann er í sjötta sæti deildarinnar með 39 stig, fimm stigum frá Evrópusæti.
Sarpsborg 08 er í neðsta sæti deildarinnar með aðeins sautján stig og er svo gott sem fallið í B-deildina.

