Breska lögreglan hefur handtekið rússneska kaupsýslumanninn Vladimir Antonov og litháenskan viðskiptafélaga hans.
Yfirvöld í Litháen gáfu út handtökuskipun á hendur þeim í gær eftir að í ljós kom að um 300 milljónir evra eða 48 milljarðar króna af eignum Snoras bankans eru horfnar.
Antonov og félagi hans voru eigendur bankans. Seðlabanki Litháens tók Snoras bankann yfir í gærdag og setti hann í slitameðferð, en hann var fjórði stærsti banki í landinu. Antonov er grunaður um fjársvik, skjalafals og peningaþvætti.
Í Bretlandi er Antonov þekktur sem eigandi enska knattspyrnuliðsins Portsmouth.
Eigandi Portsmouth handtekinn vegna fjársvika og peningaþvættis
