Golf

Sögulegur árangur hjá Luke Donald

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luke Donald á brautinni í morgun.
Luke Donald á brautinni í morgun. Nordic Photos / Getty Images
Enski kylfingurinn Luke Donald varð í dag fyrstur í sögunni til að verða tekjuhæsti kylfingurinn á bæði bandarísku og evrópsku mótaröðinni í golfi.

Donald var enn að spila þegar að það varð ljóst að Rory McIlroy myndi ekki vinna sigur á móti í Dúbæ sem lýkur nú í dag. Það er lokamót Evrópumótaraðarinnar í golfi og var McIlroy sá eini sem átti enn möguleika að komast fyrir ofan Donald á peningalistanum. Til þess þurfti hann þó að sigra í dag.

Donald var þó á góðri leið að ná þessum áfanga sjálfur því hann þurfti aðeins að vera á meðal níu efstu keppanda mótsins til að tryggja sér efsta sæti peningalistans, óháð árangri McIlroy. Þegar fjórum holum var ólokið var hann í fjórða sæti mótsins.

Alvaro Quiros er í efsta sæti mótsins í Dúbæ en árangur Donald er sögulegur.

Uppfært 12.45: Donald endaði í þriðja sæti mótsins en hann spilaði á 66 höggum í dag og var samtals á sextán höggum undir pari. Quiros vann mótið með því að spila á samtals nítján höggum undir pari.

„Ég hef verið mjög stöðugur allt árið og unnið fjögur mát. Þetta sýnir hvað ég hef lagt mikið á mig og ánægjulegt að það skuli hafa borgað sig á þennan máta,“ sagði Donald eftir mótið í dag.

McIlroy spilaði á 71 höggi í dag og var tíu höggum á eftir efsta manni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×