„Við fáum nokkra magnaða leiki á jóladag og ég er mjög spenntur," sagði Magic Johnson á ESPN. „Ég er ánægður að við getum loksins farið að einbeita okkur á körfuboltanum, liðunum og öll stórstjörunum sem spila í þessari deild. Ég er tilbúinn og ég held að allir séu klárir í bátana, bæði leikmennirnir og stuðningsmennirnir," sagði Magic.
Veislan byrjar á leik New York Knicks og Boston Celtics í Madison Square Garden sem hefst klukkan fimm að íslenskum tíma. Boston sópaði New York út úr úrslitakeppninni í vor en Knicks er búið að styrkja sig með miðherjanum Tyson Chandler sem varð meistari með Dallas á síðasta tímabili. Boston þarf hugsanlega að byrja tímabilið án Paul Pierce sem er meiddur á ökkla.

NBA-spekingar búast ekki við því að Dallas verji titilinn. Þeir hafa bætt við sig Lamar Odom og Vince Carter en eru búnir að missa tvo lykilmenn í Tyson Chandler og J.J. Barea. Þessi leikur verður í beinni á Stöð 2 Sport og hefst klukkan hálf átta að íslenskum tíma.
Þriðji leikur kvöldsins hefst klukkan tíu að íslenskum tíma og er á milli Los Angeles Lakers og Chicago Bulls. Derrick Rose, besti leikmaður síðasta tímabils mætir með lið sitt í Staples Center og hefur nú Richard Hamilton með sér í bakvarðarsveitinni.
Lakers er með nýjan þjálfara í Mike Brown en þarf að byrja án miðherjans Andrew Bynum sem er í leikbanni. Þetta lítur ekki alltof vel út fyrir Lakers sem lét Lamar Odom fara, reyndi að skipta Pau Gasol og þá þarf Kobe Bryant að spila meiddur á hendi. Þetta verður líka fyrsti NBA-leikur Metta World Peace (Ron Artest) undir nýju nafni hvað sem það þýðir.

Lokaleikurinn er síðan á milli Golden State Warriors og Los Angeels Clippers sem hefst ekki fyrr en klukkan hálf fjögur að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á NBATV. Þetta er fyrsti mótsleikur Clippers með Chris Paul en liðið byrjaði vel á undirbúningstímabilunu og vann þá nágranna sína í Los Angeles Lakers tvisvar sinnum.
Það verður enginn svikinn af því að sjá Paul leggja upp þrumutroðslur fyrir þá Blake Griffin og DeAndre Jordan sem voru tveir af þremur aðal-troðurum deildarinnar á síðustu leiktíð. Þetta verður líka fyrsti leikur Golden State liðsins undir stjórn Mark Jackson sem ætlar að leggja höfuðáhersluna á varnarleikinn hjá liði sem hefur aðallega einbeitt sér að því að keyra upp hraðann í sínum leikjum síðustu tímabil.
NBA-leikir dagsins (íslenskur tími)

19:30 Dallas Mavericks-Miami Heat (Stöð 2 Sport)
22:00 Los Angeles Lakers-Chicago Bulls
01:00 Oklahoma City Thunder-Orlando Magic
03:30 Golden State Warriors-Los Angeles Clippers (NBATV)