Senegalinn Demba Ba er harðákveðinn í að láta drauma sína rætast og ganga til liðs við félag í ensku úrvalsdeildinni.
Ba er á mála hjá Hoffenheim og er því liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar. Liðið er nú í æfingaferð á Spáni en Ba fór í verkfall og neitaði að fara með liðinu.
Félagið hefur sagt að Ba verði refsað fyrir þetta en óvíst er hvort að Ba takist að láta félagaskipti sín ganga í gegn með verkfallsaðgerðum sínum.
West Ham hefur mikinn áhuga á kappanum og sagt reiðubúið að greiða Hoffenheim fimm milljónir punda fyrir kappann.
„Það eina sem ég veit er að metnaður minn liggur í því að spila í ensku úrvalsdeildinni. Ef mér gefst tækifæri til þess ætti ég að grípa það og félagið veit það vel," sagði Ba í samtali við fréttavef Sky Sports.
„Þetta er óásættanleg hegðun," sagði Ernst Tanner, framkvæmdarstjóri Hoffenheim, í samtali við þýska fjölmiðla um málið. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við þurfum að glíma við vandamál út af honum en hann beitti þá öllum brögðum til að komast í burtu frá félaginu."
„Slík hegðun - að þvinga félagið til að selja hann með þessum hætti - er einsdæmi í þýsku úrvalsdeildinni."